Raunfærnimat

Hvað er raunfærnimat ?
Mat á raunfærni byggist á þeirri hugmynd að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við allskonar aðstæður og í því samhengi er oft talað um „lífsins skóla“. Allt nám er verðmætt og því mikilvægt að það sé skjalfest. Með raunfærnimati er hægt að meta þá færni sem hefur verið aflað t.d. með starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, búsetu erlendis, félagsstörfum og fjölskyldulífi.

Hver er ávinningurinn af raunfærnimati ?
Markmiðið er að einstaklingurinn fái viðurkennda þekkingu sína og færni, þannig að hann þurfi ekki að sækja nám í því sem hann kann nú þegar. Raunfærnimat staðfestir hæfni og gerir hana sýnilega sem er mikilvægt bæði fyrir einstaklinga og atvinnulíf.

Tökum dæmi um starfsmann sem hefur unnið í 10 ár á leikskóla og er að velta fyrir sér námi. Ef hann fer í raunfærnimat yrði reynsla hans og þekking metin til framhaldsskólaeininga. Þar með er ljóst að framhaldsnám hans myndi styttast sem því nemur.

Hver eru skilyrðin fyrir þátttöku ?
Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati er að einstaklingur sért orðinn 23 ára og hafi þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi starfsgrein. Raunfærnimat er þeim að kostnaðarlausu sem hafa ekki lokið formlegu framhaldsskólaprófi.

Hver eru fyrstu skrefin til þess að komast í raunfærnimat ?
Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um allt land sjá um að leiðbeina fólki sem hefur hug á raunfærnimati. Best er að snúa sér til einnar slíkrar og óska eftir viðtali við náms- og starfsráðgjafa.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á frae.is/raunfaernimat/